David James selur treyjur frá Reyni Sandgerði og ÍBV

David James, fyrrum markvörður enska landsliðsins, er með yfir 200 hluti á uppboði þessa dagana eftir að hann var lýstur gjaldþrota í maí síðastliðnum.

James tók hanskana nýlega af hillunni til að vera spilandi þjálfari Kerala Blasters FC í indversku ofurdeildinni, en hann lék með ÍBV sumarið 2013. Hann hefur safnað skuldum síðan hann hætti með konu sinni árið 2005, að því er fram kemur á fotbolti.net.

James er sagður hafa þénað um 20 milljónir punda á knattspyrnuferli sínum með félögum á borð við Liverpool, Manchester City og Portsmouth, en hann ku hafa eytt því öllu og meira til.

Af þeim varningi sem er til sölu eru um 150 áritaðar treyjur sem James hefur eignast á löngum ferli sínum.

Þar á meðal eru þrjár treyjur frá því að hann lék með ÍBV í fyrra. Að auki er David James með treyju frá Reyni Sandgerði á uppboðinu en um er að ræða hvíta treyju númer 18. Þá er hann með treyju frá Rauðu Stjörnunni sem hann eignaðist eftir Evrópuleik með ÍBV.

Uppboðið hefst á morgun en treyjur ÍBV eru númer 50-52 á treyjulistanum. Treyja Reynis er númer 138 á listanum, en listann í heild sinni er hægt er að skoða með því að smella hér.

 

Greint frá á fotbolti.net

Mynd: frá uppboðssíðu David James hilcoind.com / Treyjan frá Reyni Sandgerði á uppboðinu.