Höttur sigraði fjölliðamótið | Reynismenn í þriðja sæti | Myndir frá mótinu

Nú um helgina fór fram fjölliðamót 7. flokks í körfubolta hér í Íþróttamiðstöðinni í Sandgerði.  Allir þeir sem voru að spila fyrir Reynis hönd voru að spila í fyrsta skipti í íslandsmóti.  Enda báru leikir þess merki hjá okkar strákum en eftir því sem leið á mótið fóru strákarnir að átta sig á því að það var engin þörf fyrir því að bera of mikla virðingu fyrir hinum liðunum.

Þó allir leikir hafi tapast þá fara þeir allir í reynslubankann og er ekki að efast að strákarnir muni núna bæta leik sinn með góðri ástundun.

Fyrirkomulag fjölliðamótsins er á þann veg að allir spila við alla og ef liðin nota tíu leikmenn í fyrri hálfleik þá næla liðin sér í aukastig.

Þess vegna voru það strákarnir í Hetti frá Egilsstöðum sem stóðu uppi sem sigurvegarar með tvo sigra og eitt tap, en náðu sér í þrjú aukastig og enduðu því með sjö stig. Fjölnir b í öðru sæti með sex stig (þrír unnir og ekkert aukastig), þriðja sæti Reynir þrjú stig , allt sem aukastig.  Fjórða sæti Stjarnan B með tvö stig , einn unninn og ekkert aukastig.

Mótið fór vel fram og eiga allir þeir sem áttu hlut að máli, heiður skilið fyrir skemmtilega framkomu, hvort sem leikmenn eða starfsmenn.

Það verða því leikmenn Hattar sem flytjast upp úr riðlinum. Eitthvað lið kemur síðan niður og verður því bara gaman að sjá hvar strákarnir koma til með að spila næst.

 

Efsta mynd af liðinu: Lóa Gests

Aðrar myndir: Smári Valtýr