Sigurður Jóhannsson

Minningarorð

Sigurður Jóhannsson
image-4324
Reynismenn minnast fyrrverandi formanns knattspyrnudeildar Reynis, Sigurðar Jóhannssonar sem lést föstudag 26. febrúar eftir erfiða en hetjulega baráttu við langvarandi veikindi.

Það eru fáir einstaklingar sem hafa gefið meira af tíma sínum og orku til Reynisfélagsins en Siggi Brans, eins og hann var oftast kallaður. Á yngri árum lék hann knattspyrnu með félaginu, hann fór þó fljótlega að taka ábyrgð á málum utan vallar, var lengi í stjórn knattspyrnudeildar og lengst af formaður hennar. Fyrst stýrði Sigurður knattspyrnudeildinni á 9. áratug síðustu aldar og síðan aftur um þriggja ára skeið á árunum 1995-1997. Hann kom aftur inn í stjórn knattspyrnudeildar fyrir nokkrum árum, fyrst sem varaformaður en síðan formaður árið 2014. Sigurður var kraftmikill og glaðlyndur, var ekki feiminn við að segja skoðun sína og gallharður Reynismaður. Hann var sæmdur gullmerki KSÍ fyrir störf sín í þágu knattspyrnunnar.

Sigurður Jóhannsson var 61 árs þegar hann lést en hann var fæddur 21. mars 1954. Ekkja hans er Ingibjörg Bjarnadóttir og saman eiga þau synina Sigurð Bjarna, Ágúst Má og Hjört Magna. Hugur Reynismanna er með þeim og þeirra fólki á þessari erfiðu stundu.

Sigurður Jóhannsson verður jarðsunginn í Safnaðarheimilinu í Sandgerði í dag mánudaginn 7. mars kl. 14:00.