Reynir vs. Selfoss – Borgunarbikar karla í kvöld

Strákarnir í meistaraflokki taka á móti Selfyssingum á K&G vellinum í Sandgerði í kvöld og hefjast leikar kl. 19:00. Leikurinn er liður í 64-liða úrslitum Borgunarbikarsins.

Við vekjum athygli á því að þrátt fyrir að um bikarleik sé að ræða þá verður frítt á völlinn.

Reynir og Selfoss hafa 6 sinnum mæst frá árinu 1984 í skráðum mótsleikjum. 2 hafa Reynismenn farið með sigur af hólmi, tvisvar endað með jafntefli og tvisvar hafa Selfyssingar sigrað, markatalan í þessum leikjum er 9-9 og því ljóst að um hörkuleik verður að ræða á vellinum í kvöld.

Síðast áttust þessi lið við í 2.deild karla árið 2006. Fyrri leikurinn það árið fór 0-0 á Selfossvelli en sá síðari sigruðum við Reynismenn 2-0 þar sem Darko Milojkovic og Adolf Sveinsson skoruðu mörk okkar manna. Tveir leikmanna Reynis í dag tóku þátt í þessum leikjum fyrir 9 árum síðan, það voru þeir Sveinn Vilhjálmsson og Hafsteinn Helgason, þjálfari. Hinn þjálfarinn okkar, Hjörtur Fjeldsted rauk svo einnig fram og aftur vinstri kantinn í þessum leikjum (Er ekki frá því að hann hafi lagt upp bæði mörkin).

Sjáumst á vellinum í kvöld, öskrum okkur hás og hvetjum strákana til sigurs og verðum með í pottinum þegar dregið verður í næstu umferð þar sem m.a. PEPSÍ-deildarliðin koma inn.

ÁFRAM REYNIR!