Elvar Sigurjónsson innsiglaði sigurinn á vítalínunni 75 – 70

Í gærkvöldi fór fram fjórði leikur Reynis í Íslandsmóti 2. deildar í körfu.  Leikurinn var í járnum allann tímann og munurinn aldrei mikill.

KV var með frumkvæðið fyrstu þrjá mínúturnar og eftir það voru Reynismenn ætíð skrefinu á undan eða þar til á 19 mín. að KV komst yfir 33-34 en flautukarfa frá Einari innsiglaði síðan fimm stiga forskot Reynis í hálfleik 39-34.

Um miðbik þriðja leikhluta koma síðan gott áhlaup hjá Reyni og 12 stiga forskot fyrir lokaleikhlutann 63-51. En ef einhver hefur haldið að þar með yrði eftirleikurinn auðveldur þá gerðu liðsmenn KV það að engu og settu á fyrstu átta mínútum lokaleikhlutans 15 stig gegn 4 stigum Reynis og staðan því orðin 67-66 og aðeins rúmlega tvær mínutur eftir.

Þá var komið að reynsluboltanum honum Rúnari sem sýndi að hann hefur stáltaugar þegar kemur að því að setja víti niður. Fjögur víti í röð frá honum komu Reynismönnum í 71-66 og aðeins um mínúta eftir. KV reyndi að ná þeim mun en Reynismenn stóðust áhlaupið og það var síðan við hæfi að einn besti maður Reynis í þessum leik Elvar Sigurjónsson sem innsiglaði sigurinn á vítalínunni 75-70.

Leikur þessi einkenndist af mikilli baráttu og miklum hraða sem síðan kom svolítið niður á gæðum leiksins. Mikið um tapaða bolta og erfið skot voru reynd. KV leikmenn hittu afar illa af vítalínunnu 6 / 17.

Hjá Reyni átti Rúnar mjög góðan leik og stóð sig mjög vel á vítalínunni. Eins stóð Elvar fyrir sínu og hirti um tuttugu fráköst og setti mikilvæg stig.

Næsti leikur liðsins verður næsta föstudag í bikarkeppninni og verður það lið Hauka B sem koma í heimsókn. Til að eiga möguleika í þeim leik verður að fækka mistökum og fá jafnframt betri skot.

Tölfræði Reynis:

Rúnar 20 stig ,9/10 vítum, 1 þrist og 1 villu
Alfreð 12 stig, 2/4 vítum, 1 þrist
Egill 11 stig, 1/2 vítum, 2 villur
Elvar 9 stig, 3/4 vítum, 2 villur
Eðvald 8 stig, 2 þrista, 3 villur
Einar 4 stig, 1 villu
Hinrik 4 stig, 4 villur
Kristján 2 stig
Hlynur 1 villu
Atli